Starfsemin

Þjónustan sem Heilsuhjúkrun býður upp á er eftirfarandi:

Heilsufarsmælingar:
Boðið er upp á mælingar á blóðþrýstingi, hjartsláttartíðini/púls, blóðsykri, kólesteról (blóðfitum), þyngd og ummáli mittis. Starfsfólk verður frætt um viðmiðunargildi mælinga og hvers vegna mikilvægt sé að þekkja sín gildi og fylgjast með þeim yfir tíma. Hver og einn einstaklingur fær heilsufarskort með sínum niðurstöðum.

Fræðsla:
Fræðslan er í formi fyrirlestra sem taka um 15-25 mín. Efni þessa fyrirlestra eru til að mynda um háþrýsting, áunna sykursýki, áhrif álags og streitu á heilsu, mismunandi einkenni hjartaáfalls milli karla og kvenna, heilaáföll og hjarta- og æðasjúkdóma. Allir þessir kvillar eiga það sameiginlegt að hægt er að draga úr líkunum að fá fyrrnefnda sjúkdóma með heilbrigðum lífstíl; réttu mataræði, hreyfingu og hollu líferni.

Inflúensubólusetningar:
Boðið er upp á hina árlegu inflúensubólusetningu. Embætti Landlæknis mælir með að sem flestir einstaklingar séu bólusettir. Með því er verið að draga úr líkum á að viðkomandi einstaklingar veikist og einnig eru minni líkur á að smita aðra. Við skráum niður nöfn og kennitölur þeirra starfsmanna sem fá bólusetningu að beiðni Embætti Landlæknis. Einungis verður tekið gjald fyrir þá starfsmenn sem mæta í bólusetningu.

Mat á andlegri og líkamlegri líðan starfsmanna:
Við notum staðlaðan kvarða sem metur þunglyndi, kvíða og streitu. Einnig er lagður fyrir stuttur spurningalisti um almennt heilsufar. Stjórnendur fyrirtækisins fá afhenta skýrslu með niðurstöðum varðandi heilsufar starfsmanna. Að sjálfsögðu verður farið með allar upplýsingar sem trúnaðarmál.

Notkun snjallsíma til töku hjartalínurits:
Tekið er einnrar leiðslu hjartalínurit sem gagnlegt er til að meta hjartsláttartíðni og hjartatakt s.s. gáttatif. Á Íslandi hafa u.þ.b. 5000 manns greinst með gáttatif og er talið að tíðnin eigi eftir að margfaldast á næstu áratugum samfara hækkandi meðalaldri þjóðarinnar og betri meðferðarúrræðum gegn öðrum hjartasjúkdómum.

Endurlífgunarnámskeið - viðbrögð við hjartastoppi:
Farið er yfir helstu þætti endurlífgunar ásamt því að starfsfólk fær að æfa réttu handtökin við endurlífgun.

Rétt er þó að taka fram að Heilsuhjúkrun er fyrst og fremst að skima, veita forvarnir og heilsueflingu en ekki að greina sjúkdóma. Þeir einstaklingar sem mælast utan viðmiðunargilda er bent á hvert best sé að leita og einnig fá þeir fræðslu um áhrifaríkar leiðir til að mögulega sé hægt að snúa ferlinu til baka, áður en grípa þarf til róttækra aðgerða s.s. lyfjameðferðar. Með þessu vonum við að þjónustan hafi jákvæð áhrif á starfsmenn þannig að þeir fylgist betur með eigin heilsu og verði meðvitaðri um eigið heilsufar.